Handbolti

Kara­batic lætur gott heita eftir tíma­bilið

Aron Guðmundsson skrifar
Karabatic í baráttunni við íslenska landsliðið á EM 2022
Karabatic í baráttunni við íslenska landsliðið á EM 2022

Franska hand­bolta­goð­sögnin Nikola Kara­batic leggur skóna á hilluna eftir þetta tíma­bil. Frá þessu greinir Kara­batic í opnu bréfi til stuðnings­manna Paris Saint-Germain í dag.

Hinn 40 ára gamli Kara­batic er einn sá besti, ef ekki besti hand­bolta­maður sem hefur nokkru sinni stigið fæti inn á hand­bolta­völlinn og hefur hann á sínum ferli reynst afar sigur­sæll.

Með franska lands­liðinu hefur hann þrisvar sinnum unnið til gull­verð­launa á Ólympíu­leikunum, fjórum sinnum orðið heims­meistari og þrisvar sinnum Evrópu­meistari.

Karabatic hefur átt ótrúlegan feril með franska landsliðinu.vísir/getty

Í fé­lags­liða boltanum hefur hann þrisvar sinnum verið í sigur­liði í Meistara­deild Evrópu og getur á þessu tíma­bili bætt við sínum sex­tánda Frakk­lands­meistara­titli.

Þá hefur hann einnig unnið alla helstu titla í Þýska­landi og á Spáni og mun nú enda feril sinn þar sem að hann hófst, í heima­landi sínu Frakk­landi.

„Lífið gefur okkur stundum fal­legar gjafir, eins og að geta klárað á­kveðna veg­ferð þar sem að hún byrjaði,“ skrifar Kara­batic í opnu bréfi til stuðnings­manna PSG. „Í dag held ég inn í 22. og síðasta tíma­bil mitt sem at­vinnu­maður, í treyju Paris Saint-Germain. Fé­lags sem á sér­stakan stað í hjarta mínu.“

Hann segir að í gegnum sinn feril í at­vinnu­mennsku hafi hann lagt allt sitt í veg­ferðina.

„Hjarta og sál í þessa í­þrótt sem ég ann svo mikið og meiri virðingu fyrir en allt annað.“

Karabatic hefur háð nokkrar rimmurnar við íslenska landsliðið. Meðal annars í úrslitaleik Ólympíuleikanna 2008 í Peking.

Þá hafi hann á þessum árum kynnst yndis­legu fólki sem hefur haft mikil á­hrif á hans líf.

„Og sú sem stendur þar fremri öðrum er er Géraldine, maki minn, og þökk sé henni hef ég notið þess að geta spilað fyrir framan börnin okkar undan­farin ár. Þau eru mitt stærsta af­rek.“

Fólk geti treyst á að það sem eftir lifi af hans at­vinnu­manna­ferli mun Kara­batic leggja sig 200% fram. Það geri hann í þakk­lætis­skyni fyrir stuðninginn.

„Nostalgían kemur seinna.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×